Íslenskuverðlaun
Íslenskuverðlaun unga fólksins í Bókmenntaborginni Reykjavík er úthlutað árlega, á degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember. Verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Markmið þessara verðlauna er að auka áhuga æskufólks á íslenskri tungu og hvetja það til framfara í tjáningu talaðs og ritaðs máls. Verðlaunin verða veitt nemendum sem hafa tekið miklum framförum og/eða náð góðum árangri í íslensku, hvort heldur þeir hafa hana að móðurmáli eða læra hana sem annað tungumál.
Sérhver grunnskóli í Reykjavík getur tilnefnt þrjá nemendur/nemendahóp, einn á hverju skólastigi, til verðlaunanna og fá allir sem tilnefningu hljóta veglegan verðlaunagrip. Að þessu sinni voru það Boris Mazur 3.BG, Hildur Gissurardóttir Flóvenz 7. SS og Oddur Sigurðsson 10. HS sem hlutu íslenskuverðlaunin úr Hlíðaskóla. Við óskum þeim innilega til hamingju.