Skip to content

Velkomin í Hlíðaskóla

Við bjóðum þig velkomin til samstarfs og vonum að barnið þitt eigi farsælan feril í Hlíðaskóla. Það er stórt skref fyrir sex ára barn að byrja í grunnskóla og fyrsta skólaárið getur ráðið miklu um hvernig því farnast í skólanum. Í upphafi skólagöngunnar er hlutverk foreldra/forráðamanna afar mikilvægt, gott getur verið að ræða við barnið um líðan þess og væntingar til skólagöngunnar. Tilfinningar, skoðanir og væntingar fullorðna fólksins til skólans geta einnig haft mikil áhrif á líðan barnsins og upplifanir þess gagnvart skólanum. Því er þýðingarmikið að þeir sem koma að námi barnsins hafi tíma til að átta sig á þroska og getu þess þar sem skilningur og trúnaður ríkir milli foreldra og kennara þegar á fyrstu dögunum. Heimilið og skólinn þurfa ávallt að vinna vel og standa saman við að efla og styrkja barnið alla skólagönguna. Formlegt samstarf er á milli Hlíðaskóla og leikskóla hverfisins. Starfshættir og umhverfi skólastiganna eru ólík og því mikil breyting fyrir barnið að byrja í grunnskólanum. Góð samvinna og tengsl skólastiganna veitir því börnunum mikið öryggi á þessum tímamótum.

Verum ávallt börnunum góðar fyrirmyndir og tölum jákvætt um skólann. Hrósum fyrir jákvæða hegðun, leiðréttum neikvæða hegðun og hjálpumst að við að kenna góð samskipti.

Fyrstu skrefin í grunnskólagöngunni
Foreldrar væntanlegra nemenda í fyrsta bekk fá sent boðsbréf að vori þar sem verðandi nemendum er boðið að dvelja í skólanum dagsstund.

Skömmu eftir að skóli hefst að hausti er foreldrum nemenda í 1. bekk boðið á skólakynningu í Hlíðaskóla. Þar er kynning á skólastarfinu, flutt eru fræðsluerindi, kennarar í 1. bekk kynna áherslur í námi barnanna og skipulag kennslu. Foreldrar fá einnig kynningu á stoðþjónustu skólans ásamt kynningu á lengri viðveru (Eldflauginni).

Gjaldfrjáls námsgögn
Nemendur fá öll skólagögn eins og bækur og ritföng afhent gjaldfrjálst til afnota í skólanum.

Það sem nemandinn þarf að koma með að heiman:

  • Skólatösku
  • Sundföt
  • Nestisbox og drykkjarílát

Um leið og við bjóðum ykkur velkomin til samstarfs bendum við á að hagnýtar upplýsingar um skólann má finna á heimasíðu hans.

Sjá upplýsingar á heimsíðu Reykjavíkurborgar