Skip to content

Byrjendalæsi

Í Hlíðaskóla er kennt samkvæmt aðferðum Byrjendalæsis á yngsta stigi þ.e. 1. – 4. bekk. . Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð ætluð fyrir nemendur í 1. og 2. bekk en getur einnig fallið að kennslu og námi nemenda í 3. og 4. bekk. Samfélags- og náttúrugreinar eru samþættar kennslu Byrjendalæsis. 

Byrjað er á því að vinna með heildstæðan texta sem bútaður er niður í smærri einingar sem svo eru aftur notaðar til að búa til nýja frásögn eða texta. 

Í Byrjendalæsi er unnið jöfnum höndum með alla þætti móðurmálsins hlustun, tal, lestur og ritun. Kennsla samkvæmt Byrjendalæsi felst í því að kennari les sögu, ævintýri, ljóð eða annan texta. Kennari ræðir merkingu textans og útskýrir orð. Upplestur kennara er liður i að efla sameiginlega reynslu nemenda af orðum og umræðum. Eftir upplestur og umræður er unnið með tæknilega þætti lestrarnámsins. Tæknivinnan snýst m.a. um hljóðavitund, samband stafs og hljóðs, stafagerð, samsett orð, stóran og lítinn staf eða annað sem nemendur eiga að ná tökum á. 

Unnið er með textann og valin orð og eða hugtök til að vinna með. Síðan er valið lykilorð úr textanum til að ræða og rannsaka. Út frá lykilorði fá nemendur fjölbreytt verkefni allt eftir því hvar þeir eru staddir í lestrarnáminu. 

Í 1. bekk er lykilorð t.d. valið út frá þeim stöfum sem vinna á með. Það geta verið einn til tveir stafir í senn. Nemendur læra hljóðaaðferð við lestur þ.e. þeir læra að hljóða sig í gegnum orðin. Þeir þurfa að læra alla stafi og hljóð þeirra til að ná þeirri færni að tengja hljóðin saman í orð. Nemendur sem þegar kunna stafina, vinna þyngri verkefni sem snerta lykilorðið. 

Með eldri nemendur er lykilorðavinnan notuð til að þjálfa ýmis málfræðiatriði og annað sem tengist tungumálinu. 

Í lok hverrar vinnulotu eða áætlunar er gert ráð fyrir vinnu sem býður upp á að nemendur noti það sem þeir hafa lært. Þeir vinna að fjölbreyttum verkefnum út frá textanum sem lesinn var. Viðfangsefni geta verið: teikning, leikræn tjáning, hugtakakort, frásagnir og ýmis konar ritun. 

Í Byrjendalæsi er ritun samofin lestarnáminu. Ungir nemendur tjá sig í ritun með teikningum en bæta síðan orðum og orðasamböndum við myndlist sína. Nemendur skrifa að lokum heilar málsgreinar og efnisgreinar. Samfara aukinni færni í ritun læra nemendur uppbyggingu sögu. 

Í Byrjendalæsi er unnið með gagnvirkan lestur. Í gagnvirkum lestri læra nemendur að draga saman efni, spyrja spurninga, spá fyrir um framhald og leita að merkingu með því að lesa á milli lína.