Skip to content

Samskipti heimila við skóla

Reglur um samskipti foreldra og starfsmanna í Hlíðaskóla
Góð samskipti – Betri líðan

Hlíðaskóli er staðsettur við Hamrahlíð 2.
Opnunartími skrifstofu: 8.00 – 14.30
Sími: 4116650
Netfang: hlidaskoli@rvkskolar.is

Skrifstofa skólans
Skrifstofa skólans stýrir aðgengi foreldra að kennurum og öðrum starfsmönnum í samræmi við reglur skólans.
Kennari athugar með þá nemendur sem ekki eru mættir í kennslustund.
Skólaritari hringir heim ef engar upplýsingar liggja fyrir.
Foreldrar tilkynna daglega veikindi barna sinna eða stutt leyfi á skrifstofu skólans eða í gegnum Mentor fyrir klukkan 8:30.
Foreldrum er bent á að yfirfara ástundun barna sinna vikulega sem er send heim á hverjum föstudegi í gegnum Mentor.
Á heimasíðu skólans er að finna eyðublað um tímabundna undanþágu frá skólasókn ef um einn eða fleiri daga er að ræða. Beiðnum þarf að skila tímanlega til skrifstofu skólans.
Skólastjórnendur fjalla um beiðnina og veita samþykki.
Skrifstofa kemur síðan upplýsingum um leyfið til kennara.

Sími 411-6650
Kennarar svara almennt ekki í síma eða taka við skilaboðum meðan á kennslu stendur.
Foreldrar geta óskað eftir símtali frá kennara með því að senda tölvupóst á viðkomandi. Ef málið þolir ekki bið er hægt að óska eftir símtali eða fundi með milligöngu skrifstofu skólans.
Foreldrum er ekki heimilt að hafa samband við kennara/skólastarfsmenn í gegnum heimasíma eða farsíma þeirra.
Óheimilt er foreldrum að ónáða nemendur í kennslustundum. Ef erindið er brýnt er hægt að hafa samband við skrifstofu skólans sem kemur skilaboðum áleiðis.
Foreldrar tilkynna veikindi barna sinna í gegnum Mentor eða með því að hringja á skrifstofu skólans.

Táknmálssvið – DÖFF foreldrar
Vegna sérstöðu sinnar geta DÖFF foreldrar óskað eftir sambandi við kennara eða aðra starfsmenn skólans með því að senda SMS á
deildarstjóra Táknmálssviðs í síma: 6648224 /8926631
DÖFF foreldrar geta einnig óskað eftir myndsímtali með því að senda verkefnastjóra á Táknmálssviði SMS í símanúmer: 8974469 og
hefur hann milligöngu um að leiða málið áfram.

Tölvupóstur
Lögð er áhersla á að kennarar fái vinnufrið í kennslustundum og opna þeir ekki tölvupóst né svara í síma á þeim tíma.
Tölvupóstar eru eingöngu notaðir til að senda upplýsingar eða spyrjast fyrir um hagnýt mál. Aldrei ætti að nota tölvupósta til að ræða viðkvæm, persónuleg mál.
Hver og einn kennari ákveður sjálfur hvort hann tekur á móti vinnupósti í farsíma sinn.
Ef erindið er brýnt þá er hægt að hafa samband við skrifstofu skólans sem kemur boðum áleiðis.

Upplýsingar frá skólanum
Upplýsingafundir (haustfundir) eru haldnir í öllum árgöngum í upphafi skólaárs. Við byrjun grunnskólagöngu eru haldin sérstök skólafærninámskeið fyrir foreldra barna í 1. bekk.
Skólinn birtir allar helstu upplýsingar um skólastarfið á heimasíðu sinni meðal annars skóladagatal, skólanámskrá, starfsáætlun, skólareglur, samskiptareglur foreldra og skóla, starfsmannalista, matseðla og fréttir af skólalífinu.
Hagnýtar upplýsingar svo sem námsmarkmið, námsmat og upplýsingar um heimanám birtast á Mentor og eru uppfærðar reglulega af umsjónarkennara og öðrum kennurum sem koma að nemandanum.
Umsjónarkennari sendir foreldrum reglulega helstu upplýsingar um bekkjarstarfið og það sem framundan er í bekknum/hópnum.
Í október og febrúar eru sérstök samtöl foreldra, nemenda og kennara. Þar er farið yfir námslega stöðu nemandans út frá settum markmiður í samræmi við leiðsagnarnám. Einnig er almenn líðan nemandans rædd.
Á þessum tilteknu dögum eru nemendur og foreldrar boðnir sérstaklega velkomnir í stofur til sérgreinakennara til að ræða stöðu nemandans í viðkomandi grein.

Facebook og aðrir samskiptamiðlar
Innan skólans gilda samræmdar siðareglur um samskipti við foreldra á samfélagsmiðlum, t.d. varðandi vináttu starfsmanna skólans og foreldra. Almenna reglan er sú að starfsmenn skólans og foreldrar og/eða nemendur eru ekki vinir á Facebook.
Foreldrum er ávallt boðinn aðgangur að Facebook síðum sem settar eru upp fyrir nemendahópinn af kennurum.
Kennarar skólans sem stofna sérstakan Facebook hóp eða aðra sambærilega samskiptahópa fyrir foreldra skilgreina í upphafi tilgang hópsins/síðunnar, hvað á heima þar og hvað ekki.
Dæmi: Tilgangurinn með þessum hóp/síðu er að deila hagnýtum upplýsingum um nám og félagsstarf nemenda í bekknum/árganginum. Hér er deilt upplýsingum og fyrirspurnum um heimanám eða upplýsingum og fyrirspurnum um verkefni sem nemendur eru að vinna að í skólanum. Hér birtast einnig upplýsingar frá bekkjarfulltrúum og frá foreldrafélaginu.
Reglur gilda um hvenær, hvar og hvaða ljósmyndir skólinn birtir af nemendum.
Undir engum kringumstæðum er fjallað um málefni einstaklinga, hvorki nemenda, foreldra né starfsmanna skólans á samskiptamiðlum.

Heimsóknir foreldra í skólastofur
Mikilvægt er að gott samstarf sé á milli heimila og skóla. Þannig tryggjum við vellíðan og góða námsframvindu nemenda. Hvatt er til þess að foreldrar kynnist daglegu starfi barna sinna í skólanum, en heimsóknir í skólastofur skulu ávallt vera í samráði og með samþykki viðkomandi kennara.