Heimanámsstefna Hlíðaskóla
Heimanámsstefna Hlíðaskóla
Heimanámsstefna Hlíðaskóla gerir ráð fyrir hóflegu heimanámi nemenda. Grunnskólalög leggja áherslu á að foreldrar séu ábyrgir fyrir námi barna sinna og þeim beri að fylgjast með námsframvindu þeirra. Ávallt þarf að gæta þess að gott samstarf og traust ríki milli heimilis og skóla.
Heimanám er mikilvægur hluti þess að styrkja utanumhald og auka ábyrgð nemandans á náminu, það stuðlar oftast að betri námsárangri og er nauðsynlegt svo að nemandinn skilji mikilvægi eigin ábyrgðar.
Munum að áhugi, aðstoð og hvatning frá foreldrum ber alltaf árangur.
Heimanámið
Markmið heimanáms er að nemendur:
- æfi lestur
- ljúki við þau verkefni sem ekki náðist að klára í kennslustundum
- rifji upp og þjálfi það sem kennt hefur verið í skólanum og kynni sér námsefni til undirbúnings
- veiti foreldrum tækifæri til að taka þátt og fylgjast með náminu
Lestur er undirstaða alls náms og því er heimalestur á hverjum degi afar mikilvægur allt frá 1. – 10. bekkjar og ætti að vera bæði hvetjandi og skemmtilegur. Til að ná góðum árangri í lestri er mjög mikilvægt að nemandinn lesi upphátt heima alla virka daga (raddlestur). Við upphaf lestrarnáms er góð regla að lesa hverja blaðsíðu að minnsta kosti tvisvar sinnum. (Nánar um lestur í lestrarstefnu skólans)
Heimanám á hverju stigi:
Yngsta stig 1. – 4. bekkur
- Lestur – Nemendur lesa heima fimm daga vikunnar og ætlast er til að þeir lesi upphátt fyrir einhvern fullorðinn í að minnsta kosti 15 mínútur á dag.
- Nemendur fá verkefni vikulega með sér heim sem skila á í skólann viku síðar.
Verkefnin endurspegla þá vinnu sem fram fer í skólanum og eru ætluð til þjálfunar.
Þess skal gætt að heimanám sé hóflegt og valdi ekki of miklu álagi á heimilin.
Miðstigi 5. – 7. bekkur
Meginmarkmið með heimanámi á miðstigi er að nemendur dýpki skilning á þeim þáttum sem farið hefur verið yfir í skólanum. Einnig er það æfing í sjálfstæðum vinnubrögðum og leið fyrir foreldra til að fylgjast með námi barna sinna.
- Lestur bæði upphátt og í hljóði, er hluti af reglulegu heimanámi á hverjum degi.
- Miðað er við að 1 – 2 verkefni fari heim á viku t.d. í íslensku og stærðfræði.
Þeir nemendur sem nýta ekki kennslustundir sem skyldi, þurfa stundum að taka verkefni með sér heim og ljúka þeim þar.
Þess skal gætt að heimanám sé vel viðráðanlegt og í samhengi við það sem verið er að vinna að í skólanum.
Unglingastig 8.- 10. bekkur
Á unglingastigi er heimanámi haldið innan hóflegra marka. Miðað er við að ef nemendur nái ekki að fylgja áætlun eða ljúka þeim verkefnum sem fyrir eru lögð í kennslustundum þurfi þeir að ljúka þeim heima. Þannig er alltaf ávinningur af því að klára verkefnin í skólanum.
Foreldrum ber að sjá til þess að heimanám sé unnið.
- Nemendum ber að fara daglega inn á Mentor og fylgjast þannig með námi og heimavinnu.
- Lestur í öllum greinum. Heimalestur er hluti af reglulegu námi á hverjum degi þar sem nemendur undirbúa sig fyrir kennslustundir með því að lesa heima í náttúrufræði og samfélagsgreinum, einnig erlendum í tungumálum og íslensku eftir því sem við á hverju sinni.
Á álagstímum skal þess gætt að heimavinnu sé stillt í hóf.