Skip to content

Læsisstefna Hlíðaskóla

Einn af grunnþáttum menntunar er læsi, eins og kemur fram í Aðalnámskrá grunnskóla. Læsisistefna Hlíðaskóla byggir á Aðalnámskrá og læsisstefnu fyrir grunnskóla Reykjavíkurborgar. Hún er byggð á þeirri sýn að öll börn geti lært að lesa og skrifa. Markmið læsisstefnu Hlíðaskóla er tvíþætt. Annars vegar þurfa nemendur að ná tökum á ákveðnum færniþáttum. Hins vegar þarf að efla áhuga og rækta jákvæð viðhorf nemenda til lestrar og ritunar. Læsisstefnan er fyrir alla sem koma að lestrarþjálfun. 

Lestur og ritun tengjast öllum námsgreinum, nota þarf fjölbreyttar kennsluaðferðir til að auka orðaforða, málskilning og lesskilning nemenda í öllum árgöngum grunnskólans. Allir kennarar koma að lestrarþjálfun, orðaforðavinnu og námstækni. Skimað er fyrir lestrarerfiðleikum og áhersla lögð á snemmtæka íhlutun. Markmiðið með snemmtækri íhlutun er að grípa eins fljótt inn í lestrarvanda nemenda með reglubundinni lestrarskimun og lestrarkennslu sem tekur mið af einstaklingsþörfum. 

Læsisstefnu Hlíðaskóla er skipt niður í þrjá hluta. Í fyrsta hluta er yfirlit yfir markmið, kennsluaðferðir og leiðir sem hægt er að fara í kennslu. Í öðrum hluta er skimunaráætlun skólans og viðmið um árangur. Þriðji hluti er með stuttar skilgreiningar á þeim kennsluaðferðum sem nefndar eru í áætluninni. 

Heimilin gegna mikilvægu hlutverki í lestrarþjálfun barna. Daglegur heimalestur er mikilvægur og á það við nemendur á öllum skólastigum. Umræða um lesefnið er til þess fallin að auka lesskilning og orðaforða. Ef góður árangur á að nást er mikilvægt að skóli og heimili vinni vel saman.

Læsisstefna Hlíðaskóla