Mat á skólastarfi
Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008, 8. kafla er fjallað um mat og eftirlit með gæðum grunnskólastarfs.
Markmið mats og eftirlits með gæðum starfsins er m.a. að veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun. Einnig ber að tryggja að starfsemi skólans sé í samræmi við lög og reglur. Huga þarf að gæðum náms og skólastarfs og tryggja að réttindi nemenda séu virt.
Hver grunnskóli metur með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra. Grunnskóli birtir opinberlega upplýsingar um innra mat sitt.
Sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs. Þau skulu jafnframt fylgja eftir að það mat leiði til umbóta í skólastarfi ef þess þarf.
Skólapúlsinn
Nemendakönnun fyrir nemendur í 6. – 10. bekk fer fram í nokkrum 40 nemenda úrtökum sem dreift er samhverft yfir skólaárið þar sem fjöldi úrtaka fer eftir stærð hvers skóla fyrir sig.
Nemendakönnun í 2.-5. bekk fer fram í október á hverju ári.
Lesfimipróf
Lesfimipróf Menntamálastofnunar er staðlað einstaklingspróf sem veitir upplýsingar um stöðu nemanda í lesfimi út frá viðmiðum sem Menntamálastofnun hefur sett. Lesfimiprófið metur færni sem birtist í nákvæmum, sjálfvirkum og fyrirhafnarlausum lestri en þeir þættir, ásamt viðeigandi afmörkun hendinga og réttu hljómfalli, stuðla að auknum lesskilningi. Prófútgáfurnar eru alls tíu, eða ein fyrir hvern árgang, og er sama prófið lagt fyrir í september, janúar og maí.