Barnakór Hlíðaskóla

Kórfréttir

Textar og tóndæmi

Barnakór Hlíðaskóla var stofnaður haustið 2004 af Sigríði Jóhannsdóttur tónmenntakennara og Sigurrós Jónu Oddsdóttur umsjónarkennara. Í upphafi var kórinn aðallega fyrir 2. - 4. bekk en þróaðist smám saman yfir í að vera einkum fyrir 4. - 7. bekk. Árin 2009 - 2011 voru kórar skólans tveir, yngri kór fyrir 3. og 4. bekk og eldri kór fyrir 5. - 7. bekk. Rakel Guðmundsdóttir umsjónarkennari var einnig stjórnandi í kórnum á þeim tíma. Nú, veturinn 2011 - 2012, er aðeins einn barnakór og er hann ætlaður nemendum í 4. - 7. bekk. Nemendur úr unglingadeild eru þó einnig velkomnir.

Ágæt aðsókn er í kórinn og er fjöldi meðlima á hverjum vetri yfirleitt um og yfir 30 nemendur. Nemendur sem stunda hljóðfæranám hafa einnig lagt kórnum lið og tekið þátt með leik sínum á fiðlur, selló, þverflautu og fleiri hljóðfæri. Kóræfingar eru einu sinni í viku eftir skóla og fara ýmist fram í tónmenntastofu eða í sal skólans.

Kórinn syngur ávallt á jólaskemmtunum skólans fyrir 1. - 5. bekk og oft einnig í jólastundum skólans í Háteigskirkju. Einnig er komin hefð fyrir því að kórinn syngi við útskrift 10. bekkjar að vori. Í desember 2007 voru haldniraðventutónleikar fyrir foreldra og var aðgangseyrinn notaður til að kaupa sérstakan hljóðnema sem nýtist kórnum við söng í sal skólans. Einnig hefur kórinn verið fenginn til að syngja utan skólans, svo sem við Æskulýðsmessu í Háteigskirkju, á Hótel Sögu fyrir einkafögnuð og í aðventuboði Félags bókagerðarmanna. Kórinn hefur einnig sungið á Blindraheimilinu og í félagsstarfi eldri borgara.

 

Prenta | Netfang