Söngleikir

Söngleikir í 1. - 7. bekk

Á hverju ári eru settir upp söngleikir í 1. - 7. bekk undir stjórn tónmenntakennara í samvinnu við bekkjarkennara. Æft er í tónmenntatímum, í bekkjarstofu og á samkomusal skólans. Í söngleikjunum er unnið með söng, hljóðfæraleik, leiklist, sviðsmynd, dans og búninga.

Í gegnum vinnu við söngleikina fá nemendur margvíslega þjálfun s.s. í söng og raddbeitingu, hljóðfæraleik, hreyfingu, hlustun, sköpun, munnlegri túlkun og  sviðsframkomu.

Söngleikir byggjast mikið á samvinnu nemenda. Þar þurfa þeir að taka tillit hver til annars og sýna þolinmæði og umburðarlyndi. Í söngleik hafa allir mikilvægt hlutverk - allir eru þátttakendur og hlekkir í mikilvægu ferli.

Foreldrum og systkinum viðkomandi nemenda er boðið að koma og sjá söngleikina á bekkjarskemmtunum sem segja má að séu eins konar uppskeruhátíðir. Foreldrar koma með kræsingar á sameiginlegt hlaðborð svo úr verður veisla fyrir öll skilningarvitin.

Söngleikir í  2. – 7. bekk fara fram á haustönn en nemendur í 1. bekk bíða hins vegar fram til vorannar með sína söngleiki. 

Söngleikur í 1. bekk: Rauðhetta.

Söngleikur í 2. bekk:  Dimmalimm.

Söngleikur í 3. bekk: Öskubuska.

Söngleikur í 4. bekk:  Mjallhvít og dvergarnir ( tala dverganna er mjög breytileg og fer eftir fjölda nemenda í viðkomandi bekkjardeild hverju sinni).

Söngleikur í 5. bekk: Kardimommubærinn.

Söngleikur  í 6. bekk: Gosi og  félagar.

Söngleikur í 7. bekk: Úr fortíð til framtíðar.

 

Söngleikir í unglingadeild

Árið 1994 settu nemendur í unglingadeildum skólans upp söngleikinn „Undir Öskjuhlíð“ og tóku liðlega 50 nemendur þátt í sýningunni. Þremur árum seinna var settur upp söngleikurinn „Það er að koma“ með þátttöku 70 - 80 nemenda. Síðan hefur boltinn haldið áfram að rúlla, söngleikir eru orðnir ómissandi hefð þriðja hvert ár og þátttakendum hefur fjölgað jafnt og þétt. Er reyndin sú að flestir nemendur unglingadeildar taka þátt í uppfærslunum á einn eða annan hátt.

Nemendur sjá sjálfir um að semja söngleikina. Þá kynnast þeir af eigin raun skapandi skriftum, leikrænni tjáningu og spunaferli. Þeir fá þjálfun í að túlka og tjá skoðanir sínar og tilfinningar á leikrænan hátt í hópi. Einnig sjá þeir um dans, söng, tónlist, sviðsmynd, sýningarskrá o.fl.

 

Prenta | Netfang