Skip to content

Reglugerð um grunnskóla vegna COVID 19

Reglur vegna COVID 6.april 2021

Grunnskólar.

Grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi þ.m.t. íþróttastarfi í skóla­byggingum með 2 metra nálægðartakmörkum milli starfsfólks. Sé starfsfólki ekki unnt að tryggja 2 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks skal það nota andlitsgrímur. Ekki skulu vera fleiri en 20 starfs­­menn í hverju rými, þó er starfsmönnum heimilt að fara milli hópa og rýma.

Nemendur í 1.-10. bekk eru undanþegnir 2 metra nálægðartakmörkun sem og grímuskyldu. Ekki skulu vera fleiri en 50 nemendur í hverju rými innan dyra. Blöndun nemenda milli hópa er heimil.

Í sameiginlegum rýmum skóla, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, sem og í mötuneytum og skólaakstri, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun að því gefnu að starfsfólk notist við andlitsgrímu.

Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi grunnskóla s.s. fyrirlestrar, upplestrarkeppnir o.fl. eru óheimilir fyrir aðra en nemendur og kennara.

Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma inn í skólabyggingar nema nauðsyn beri til. Stjórnendum grunnskóla er heimilt að krefja foreldra, þurfi þeir að koma inn í skóla­bygg­ingu, um að nota andlitsgrímur. Aðrir en starfsmenn sem koma inn í grunnskóla, svo sem kennarar tón­listar­skóla sem koma inn í grunnskóla með einstaklingskennslu, starfsfólk skólaþjónustu sveitar­félaga og vegna vöruflutninga, skulu bera andlitsgrímur.

Ráðstafanir skulu gerðar til að þrífa og sótthreinsa byggingar eftir hvern dag og milli hópa í sama rými.

Ákvæði þessarar greinar eiga einnig við um frístundaheimili, skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tóm­stunda­starf barna á grunnskólaaldri, sem og starfsemi í félagsmiðstöðvum.