Skip to content

Skólareglur og skólabragur

Skólareglur Hlíðaskóla eru unnar í samræmi við “Lög um grunnskóla” um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Í Hlíðaskóla vinnum við eftir hugmyndafræði SMT skólafærni undir kjörorðunum ábyrgð, virðing, vinsemd. Markmið SMT er að skapa gott andrúmsloft í skólanum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Aðferðin leggur áherslu á leiðir til að koma í veg fyrir og draga úr hegðunarvanda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, umbuna fyrir æskilega hegðun og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna hegðunarfrávik.
Nemendur sem hafa góða félagsfærni sýna síður óæskilega hegðun, eiga auðveldara með að eignast vini og leysa á farsælan hátt úr vandamálum og ágreiningsefnum.
Samskipti og háttsemi í skólanum skulu grundvallast á kjörorðum skólans, ábyrgð, virðing, vinsemd.
Stundvísi er dyggð og tákn um sjálfsaga. Að vera stundvís felur í sér virðingu fyrir samferðafólki og þeim verkefnum sem unnið er að. Því ber að mæta stundvíslega til allra verka í Hlíðaskóla.
Ein af forsendum þess að ná árangri í námi er góð ástundun. Því er mikilvægt að allir mæti vel undirbúnir í kennslustundir og fylgi námsáætlunum eftir bestu getu.
Heilbrigt líferni og svefn eru forsenda vellíðunar og árangurs í námi. Hlíðaskóli leggur áherslu á að nemendur komi úthvíldir í skólann. Neysla hvers konar vímugjafa er með öllu óheimil í skólanum.

Við rekstur mötuneytis í Hlíðaskóla er lögð áhersla á að fylgja leiðbeiningum frá Embætti landlæknis. Mælst er til þess að nemendur komi með hollt nesti að heiman. Neysla sælgætis og hvers kyns orku- eða gosdrykkja er óheimil á skólatíma nema með sérstöku leyfi frá kennara.

Mikil verðmæti eru falin í húsnæði skólans, innanstokksmunum, lóð, leiktækjum, kennslutækjum og gögnum. Við virðum þessi verðmæti og leggjum áherslu á góða umgengni.

Notkun síma, snjalltækja, hljómtækja og annarra raftækja er með öllu óheimil í kennslustundum nema með sérstöku leyfi kennara. Slökkva ber á slíkum tækjum og þau skulu geymd í skólatösku. Öll myndataka með snjalltækjum er óheimil á skólatíma. Skólinn tekur enga ábyrgð á slíkum tækjum.

Nemendur mega gjarnan koma á reiðhjólum í skólann. Aðstaða er á skólalóð til að geyma reiðhjól í þar til gerðum hjólagrindum og skulu þau höfð þar á skólatíma. Skólinn tekur enga ábyrgð á reiðhjólunum. Önnur farartæki er ekki hægt að geyma í skólanum og því skulu þau höfð heima.
Ef upp koma ágreiningsmál er varða nemendur þá skal gæta þess að nemendur fái tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Lögð er áhersla á að leysa þau mál sem koma upp í góðri samvinnu við heimilin.

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur og Velferðarsvið Reykjavíkur hafa gefið út verklagsreglur sem taka til allra helstu þátta sem skólareglur eiga að ná yfir. Þessar reglur ná yfir eftirtalda þætti:

  • viðbrögð við hegðunar- og samskiptavanda nemenda
  • verklagsregla gegn einelti
  • verklagsregla um viðbrögð við skólasóknar- og ástundunarvanda nemenda
  • verklagsregla um viðbrögð við lögbrotum á skólatíma og á leið nemenda til og frá skóla og alvarlegum brotum nemenda á skólareglum
  • líkamlegt inngrip í máli nemenda vegna óásættanlegrar og/eða skaðlegrar hegðunar
  • verklagsregla vegna trúnaðarbrests milli foreldra og skóla

Umsjónarkennarar semja bekkjarreglur/stofureglur með sínum umsjónarhópi.

Reglur um símanotkun veturinn 2022-2023
1. – 7. bekkur
Öll síma- snjalltækjanotkun er óheimil í kennslustundum og á skólasvæðinu nema með sérstöku leyfi kennara.

8. – 10. bekkur
Öll síma- og snjalltækjanotkun er óheimil í kennslustundum og á skólasvæðinu nema á unglingagangi í frímínútum og með sérstöku leyfi kennara.

Allar myndatökur og aðrar upptökur á persónuleg snjalltæki nemenda eru óheimilar innan skólans.

Afleiðingar vegna brota á símareglum:
Við brot á símareglum er síminn tekin af nemenda og fer á skrifstofu skólans.
Fyrsta brot:
Nemandi getur nálgast símann á skrifstofu að skóla loknum.
Annað brot:
Hringt í foreldri og nemandi fær síma sinn afhentan á skrifstofu að skóla loknum.
Þriðja brot:
Foreldri þarf að sækja símann á skrifstofu.
Fleiri brot:
Eingöngu foreldrar fá símann afhentan á skrifstofu skólans.