Stoðþjónusta
Stoðþjónusta
Hlíðaskóli er skóli án aðgreiningar með þjónustu fyrir alla nemendur sína. Jafnrétti til náms eru almenn mannréttindi og það er hlutverk skólans að stuðla að alhliða þroska og menntun allra nemenda. Stoðkennsla Hlíðaskóla byggir á grunnskólalögum, aðalnámskrá grunnskóla og stefnu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur um skóla án aðgreiningar. Stoðkennsla er ein þeirra leiða sem skólinn býður upp á til að koma til móts við mismunandi þroska og getu hvers og eins nemanda. Stoðkennsluþörf getur kallað á umtalsverða breytingu á innihaldi náms, kennsluaðferðum og/eða kennsluaðstæðum.
Meginmarkmið Aðalnámskrár eiga jafnt við um stoðkennslu og almenna kennslu. Í stoðkennslu getur verið nauðsynlegt að víkja frá einstökum markmiðum, breyta viðfangsefnum og/eða setja ný markmið. Stoðkennslan getur verið skipulögð tímabundið eða yfir lengri tíma. Áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun og eru reglulega lögð fyrir skimunarpróf í þeim tilgangi að finna nemendur sem eiga við námserfiðleika að etja. Deildarstjóri stoðkennslu hefur umsjón með skipulagi kennslunnar.
Skipulag stoðkennslu
Megináhersla er lögð á að hver nemandi geti nýtt hæfileika sína til náms. Stoðkennsla er ein leið sem skólinn hefur til að styðja við nemendur í námi og skólastarfi. Stoðkennsla getur verið einstaklingskennsla eða hópkennsla. Hún getur farið fram í bekkjarstofu nemenda eða í námsveri.
Tekið er mið af niðurstöðum skimunarprófa s.s. Lesferils, Logos og Talnalykils, auk prófa og kannana umsjónarkennara (sjá skimunaráætlun Hlíðaskóla) þegar ákvörðun er tekin um stoðkennslu fyrir nemendur.
Nemendum í 1. bekk fylgja oft niðurstöður úr Hljóm sem lagt er fyrir í leikskóla. Hljóm er próf sem athugar hljóð- og málvitund leikskólabarna og gefur vísbendingar um hugsanlega námserfiðleika. Talmeinafræðingar skima alla nemendur 1. bekkjar (sjá skimunaráætlun).
Umsjónarkennarar sækja um stoðkennslu fyrir nemendur í samráði við foreldra til deildarstjóra stoðkennslu. Í umsókninni kemur fram hver staða nemandans er í námi, hvaða námsþætti nemandinn þarf stuðning við og hvernig komið hefur verið til móts við námsþarfir hans í bekknum. Þar kemur fram hvaða kannanir, próf og/eða greiningar liggja að baki umsókninni.
Foreldrar / forráðamenn geta óskað eftir stoðkennslu og fer þá beiðnin til deildarstjóra stoðkennslu sem metur þörfina.
Flestir nemendur sem fá stoðkennslu fylgja bekkjarnámskrá, en einstaklingsnámskrá er gerð fyrir nemendur þegar víkja þarf frá markmiðum og leiðum bekkjarins.
Helstu námsþættir sem nemendur þurfa stoðkennslu í eru lestur, ritun og stærðfræði.
Nemendur sem glíma við lestrarerfiðleika geta þurft þjálfun í hljóðgreiningu, þjálfun til að auka lestrarhraða og lestraröryggi, efla lesskilning og leikni í vinnu með texta. Lögð er áhersla á notkun hljóðbóka, leiðréttingaforrita og námstækni.
Kennsla í ritun eða vinnu með mál getur falist í skriftarþjálfun, þjálfun í einstökum þáttum hljóðgreiningar, að nýta sér reglur í stafsetningu, þjálfun í málfræði, vinnu með málfræðihugtök og ritun ýmiss konar texta.
Nemendur sem eiga í erfiðleikum í stærðfræði geta þurft hlutbundna kennslu, þjálfun grunnaðgerða, hægari yfirferð eða annað námsefni.
Kennsla í námsveri fer að mestu fram í námskeiðsformi. Gengið er út frá því að unnið sé með sama efni í bekk á sama tíma og stoðkennsla fer fram í námsveri, en efnistök geta verið ólík.
Fyrir hvert námskeið eru sett skilgreind markmið, leiðir og námsefni ákveðið. Fjöldi kennslustunda á viku og hve lengi námskeiðið á að standa er ákveðið í upphafi. Þessar upplýsingar eru kynntar nemendum í fyrsta tíma námskeiðs. Í lok námskeiðs er árangur metinn.
Sérkennarar í námsveri sinna nemendum sem þurfa tímabundið eða til lengri tíma aðra nálgun í námi en unnið er eftir í bekknum.
Sérkennarar í námsveri veita samkennurum stuðning og ráðgjöf um námsefni og leiðir í kennslu nemenda með námsörðugleika.
Þjónusta við þennan nemendahóp er breytileg. Hver nemandi er einstakur, með sín sérkenni og þarfir, sem kennslutilhögun skólans verður að taka mið af.
Markmiðið er að einstaklingsþörfum nemenda sé sem mest mætt á vinnusvæði bekkjarins og í almennri þátttöku í skólastarfinu. Ef þörf er á óskar umsjónarkennari og/eða foreldrar eftir stuðningi/stoðkennslu fyrir nemanda hjá deildarstjóra stoðkennslu.
Markmiðið með félagslegum stuðning er að stuðla að bættri félagsfærni og aukinni félagslegri þátttöku. Umsjónarkennari og starfsmenn stoðþjónustu vinna saman að félagslegum stuðningi. Félagslegur stuðningur nemenda getur falist í:
- skipulegri samvinnu nemenda í litlum hóp
- skipulagðri vinnu með virkni nemenda í frímínútum og frjálsum leik
- vinnu með Cat kassann
- vinnu með félagsfærnisögur
- vinahópum
- vinaliðum
- fræðslu um einelti
Ef ástæða þykir er teymi stofnað í kringum nemandann þar sem unnið er að sameiginlegum markmiðum er varða skólagöngu hans. Teymið er skipað foreldrum, umsjónarkennara og öðrum starfsmönnum skólans sem mest vinna með nemandanum. Í teyminu geta einnig verið aðilar utan skólans sem koma að málefnum nemandans. Tilgangur þverfaglegra teyma er að samhæfa þjónustu. Teymin funda a.m.k. tvisvar á ári og oftar ef þörf er á.
Einstaklingsnámskráin hefur skýra tengingu við bekkjarnámskrána og þar eru námsáherslur, námsefni og kennsluaðferðir aðlagaðar að þörfum nemandans. Markmið einstaklingsnámskrár eru reglulega metin og endurskoðuð.
Námsráðgjafi er talsmaður nemenda og trúnaðarmaður. Hlutverk námsráðgjafans er að standa vörð um velferð allra nemenda. Með hliðsjón af starfslýsingu fyrir námsráðgjafa í grunnskólum Reykjavíkur eru helstu viðfangsefni þessi:
- Að aðstoða nemendur í 8. – 10. bekk við val á námsgreinum
- Að annast náms- og starfsfræðslu
- Að veita ráðgjöf vegna náms- og starfsvals
- Að aðstoða og leiðbeina nýjum nemendum
- Að fylgja nemendum eftir inn í framhaldsskóla
- Að vinna að bættum samskiptum innan skólans
- Að sinna fyrirbyggjandi starfi í samstarfi við foreldra, starfsmenn skólans og sérfræðiþjónustu Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða.
Tilgangur skólaheilsugæslu er að fylgjast með heilsu, þroska, líðan og högum barna á grunnskólaaldri. Hlutverk hennar er að stuðla að líkamlegu, andlegu og félagslegu heilbrigði skólabarna og að greina og sinna heilbrigðisvandamálum sem hafa áhrif á velferð nemenda og námsgetu. Einnig að meta þá þætti í umhverfi og aðstæðum barna sem hafa áhrif á heilsu og líðan þeirra. Boðið er upp á reglulegar skoðanir, viðtöl og fræðslu. Til þess að þetta sé mögulegt þarf að koma til samstarf allra í skólasamfélaginu, þ.e. nemenda, starfsfólks, foreldra og heilsugæslu og eftir þörfum aðila utan skólans.
Heilsugæsla Hlíðaskóla er á vegum heilsugæslunnar í Hlíðahverfi. Hjúkrunarfræðingur skólans, er með fasta viðveru í skólanum alla virka daga. Mikilvægt er að starfsfólk skólans fái upplýsingar um þá nemendur sem þurfa á sérstöku eftirliti og umhyggju að halda. Má þar nefna langvinna sjúkdóma, ofnæmi, lyfjanotkun eða breytingar á högum nemenda. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Hér á eftir fara helstu verkefni heilsugæslunnar:
- 1. bekkur. Hjúkrunarskoðun, sjónpróf og heyrnarmæling. Bólusett gegn
barnaveiki og stífkrampa. - 2. bekkur. Hjúkrunarskoðun og sjónpróf.
- 3. bekkur. Hjúkrunarskoðun og berklapróf.
- 4. bekkur. Hjúkrunarskoðun og sjónpróf. Bólusett gegn mænusótt.
- 7. bekkur. Hjúkrunarskoðun og sjónpróf. Mótefni gegn rauðum hundum mæld hjá stúlkum og þeim sem engin mótefni hafa er boðin bólusetning. Einnig er boðið upp á bólusetningu gegn hettusótt.
- 9. bekkur. Hjúkrunarskoðun, sjónpróf og heyrnarmæling. Boðið viðtal við lækni.
Hjúkrunarfræðingur sér einnig um að fræða nemendur um svefn, hreinlæti og næringu
Talmeinafræðingar skima alla nemendur í 1. bekk. Á grunni þeirra niðurstaðna er ráðgjöf og þjálfun boðin þeim nemendum sem þess þurfa. Talþjálfun getur falist í vinnu með framburð, orðaforða, málskilning, tjáningu, hlustun og hljóðvitund. Þjálfunin fer ýmist fram í einstaklingskennslu eða litlum hópum.
Umsjónarkennari
Hefur yfirsýn yfir nám og skólagöngu er þá varðar. Skipuleggur kennsluaðstæður inn í bekk og nám nemenda.
Sér um að aðlaga kennsluefni og verkefni/próf.
Setur upp umbunakerfi umsjónarnemenda sinna og ber ábyrgð á samskiptum og samhæfingu varðandi úrræði.
Gerir einstaklingsnámsskrá í samráði við foreldra. Er í samvinnu við faggreinakennara og sérkennara og/eða þroskaþjálfa við gerð einstaklingsnámsskráa.
Hefur umsjón með upplýsingamiðlun til þeirra sem vinna með nemandanum í skólanum.
Kemur beiðni um sérstakan stuðning áfram til deildarstjóra stoðkennslu.
Faggreinakennarar
Fá upplýsingar um fatlaða nemendur og nemendur með námserfiðleika bæði frá umsjónarkennurum og á sérstökum upplýsingafundum sem haldnir eru á skipulagsdögum að hausti.
Aðlagar námsefni og verkefni/ próf í sinni kennslugrein.
Skipuleggja aðstæður í faggreinastofu þannig að allir nemendur njóti sín sem best. Gera einstaklingsnámsskrá í sinni kennslugrein í samvinnu við foreldra, umsjónarkennara og sérkennara eða þroskaþjálfa.
Deildarstjóri stoðkennslu
Ber ábyrgð á skipulagi sérkennslu og hefur umsjón með gerð einstaklingsnámskráa.
Sér um fræðslu og upplýsingagjöf til annarra starfsmanna.
Heldur utan um greiningar og greiningarvinnu.
Hefur yfirsýn yfir stuðningsúrræði og teymi.
Situr í teymum varðandi nemendur með sérþarfir.
Situr í nemendaverndarráði og lausnarteymi.
Veitir ráðgjöf.
Sérkennari
Er í samvinnu við deildarstjóra stoðkennslu og umsjónarkennara um skipulag varðandi nemendur með örðugleika.
Er í samvinnu við foreldra og aðra kennara við gerð einstaklingsnámsskráa.
Kemur að kennslu nemenda í ákveðnum námsgreinum að hluta til eða í sumum tilfellum öllu leyti, innan eða utan bekkjar.
Aðlagar námsefni.
Leggur fyrir greinandi próf í lestri og stærðfræði.
Veitir ráðgjöf.
Situr í teymum varðandi nemendur sem þeir sinna.
Gerir virknimat og setur upp umbunarkerfi.
Sinnir félagsfærniþjálfun.
Talmeinafræðingur
Leggur fyrir málþroskapróf.
Vinnur með framburð og málþroska.
Veitir ráðgjöf.
Þroskaþjálfi
Er í samvinnu við umsjónarkennara, faggreinakennara og sérkennara.
Gerir einstaklingsnámsskrár í samvinnu við foreldra og kennara.
Kemur að gerð námsefnis fyrir fatlaða nemendur.
Sér um þjálfun nemenda, innan eða utan bekkjar.
Sinnir félagsfærniþjálfun.
Gerir virknimat og setur upp umbunarkerfi.
Stuðningsfulltrúi
Styður við nemandann í námi sínu.
Styður við nemandann utan kennslustofu.
Starfar eftir verkstjórn kennara og deildarstjóra stoðkennslu.
Aðlögun og skipulag
Umsjónarkennari ber ábyrgð á sínum bekk og skipuleggur kennslu og aðstæður í bekkjarstofu út frá sínum nemendahóp.
Faggreinakennarar aðlaga einnig aðstæður og námsefni í sinni grein.
Aðlögun og skipulag getur til dæmis falist í:
- að huga að uppröðun í kennslustofu t.d. þannig að nemandinn sitji nálægt kennaranum eða á þeim stað sem hentar honum best
- að hafa athvarf í skólanum þar sem er minna áreiti
- að fá endurtekin fyrirmæli, maður á mann
- að fá tækifæri til að hreyfa sig, svo sem fara í sendiferðir
- skýru skipulagi og góðu utanumhaldi
- að huga að sjónrænu skipulagi t.d. myndrænni stundaskrá
- tvöföldu setti af bókum, einu heima og öðru í skólanum
- að fá tækifæri til að vinna verkefni í tölvu
- umbunarkerfi til að styrkja jákvæða hegðun
- viðfangsefnum í lífsleikni og bekkjarfundum þar sem unnið er með félagsleg samskipti og líðan
- félagshæfnisögum, vinna verkefni tengdum CAT kassanum
- að vinna bakkavinnu (Teach)
- aðlöguðu námsefni, vinna út frá styrkleika nemandans, vinna valin verkefni eða breyta t.d. í krossaspurningar og eyðufyllingar
- að hafa stuttar vinnulotu
Aðlögun námsleiða
- aðstoð við nám samkvæmt námsáætlun
- stoðkennsla samkvæmt einstaklingsnámsskrá
- stoðkennsla/stuðningur inn í bekk
- stoðkennsla í námsveri að hluta til árgöngum skipt í minni hópa í námsgreinum aðstoð við heimavinnu í vinnustund
- atvinnutengt nám í 9.-10.b.
Innan skólans starfar lausnarteymi. Í teyminu sitja deildarstjóri yngsta- og miðstigs, námsráðgjafi,skólasálfræðingur og kennsluráðgjafi frá þjónustumiðstöð Vesturbæjar Miðborgar og Hlíða. Lausnateymi er jafningjastuðningur og hlutverk þess er að veita ráðgjöf vegna hegðunar-, samskipta- og eða námserfiðleika nemenda. Teymið styður kennara með því að koma með tillögur að lausn mála. Kennarinn velur síðan úr tillögunum þá lausn sem honum líst best. Kennarar senda tilvísun til lausnateymis á sérstöku eyðublaði ef þeir telja sig þurfa aðstoð og/eða handleiðslu.
Lausnarteymið vinnur náið með nemendaverndarráði. Í samráði við foreldra er hægt er að kalla til kennsluráðgjafa frá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða í vettvangsathugun og vinnu með einstaklinga. Einnig getur skólinn í samráði við foreldra leitað eftir sérhæfðri kennsluráðgjöf t.d. frá Farteymi Reykjavíkurborgar, Brúarskóla og Klettaskóla.
Samkvæmt lögum um grunnskóla, skal í hverjum grunnskóla vera starfandi nemendaverndarráð sem stendur vörð um velferð einstakra nemenda.
Nemendaverndarráð skólans kemur saman á tveggja vikna fresti á starfstíma skóla. Nemendaverndarráð fjallar um málefni einstakra nemenda og samræmir störf þeirra sérfræðinga sem sjá um málefni þeirra. Telji kennarar og aðrir sérfræðingar innan skólans þörf á að vísa málefni nemanda til skólasálfræðings er haft samband við foreldra sem verða að veita skriflegt samþykki fyrir slíkri athugun. Umsjónarkennari hvers nemanda sem fjallað er um í ráðinu, situr fundi þar sem fjallað er um málefni nemandans og fylgir málinu eftir.
Í nemendaverndarráði eiga sæti skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri stoðkennslu, námsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur og sálfræðingur, kennsluráðgjafi og félagsráðgjafi frá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða.