Skip to content

Árið 1999 hófst samvinna milli Hlíðaskóla og Vesturhlíðarskóla með námslega og félagslega blöndun nemenda beggja skólanna í huga. Á fundi fræðsluráðs Reykjavíkur 13. maí 2002 var samþykkt að Vesturhlíðarskóli og Hlíðaskóli yrðu sameinaðir í einn skóla undir heitinu Hlíðaskóli frá og með 1. september 2002. Heyrnarlausir og heyrnarskertir nemendur innritast á Táknmálssvið Hlíðaskóla.

Hlutverk Táknmálssviðs er að veita heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum nemendum kennslu við hæfi. Táknmálssvið tekur við nemendum af öllu landinu sé þess óskað og viðkomandi sveitarfélag reiðubúið að greiða fyrir þá þjónustu. Nemendur Táknmálssviðs tilheyra sínum árgangi og bekk námslega og fá þar einnig sína félagslegu tengsl. Fagfólk Táknmálssviðs skipuleggur nám nemenda miðað við námslega stöðu og getu hvers og eins, að höfðu samráði við foreldra, deildarstjóra og umsjónarkennara.

Kennsla á Táknmálssviði miðast við Aðalnámsskrá grunnskóla eins og mögulegt er.

Gerðar eru einstaklingsáætlanir fyrir alla nemendur Táknmálssviðs og nám þeirra sniðið að hverjum og einum. Kennsla nemenda getur farið fram:

  • Inni á Táknmálssviði ýmist í hóp eða einstaklingslega.
  • Í heimabekk ýmist með túlk eða með táknmálstalandi kennara í tveggja kennara kerfi.
  • Með táknmálstalandi stuðningsaðila annað hvort í heimabekk eða inn á Táknmálssviði.

Fylgst er mjög náið með námsframvindu og félagslegri stöðu nemenda og endurmeta fyrirkomulag kennslunnar, markmið og árangur reglulega. Mat í einstökum greinum fer fram með hefðbundnum hætti eftir getu og þörfum hvers og eins.