Um Táknmálssvið

Hugmyndafræði Táknmálssviðs

Stefnumörkun fræðsluyfirvalda er skóli án aðgreiningar og sameinaður skóli á að þjóna bæði heyrnarlausum/-skertum og heyrandi nemendum, þannig að allir fái kennslu við hæfi. Blöndunin á að stuðla að víðsýni, umburðarlyndi og auknum félagsþroska nemenda og minnka félagslega einangrun heyrnarlausra/-skertra. Einnig að auka fjölbreytni í náminu og námskröfur. Hugmyndafræði Táknmálssviðsins byggir á tvítyngisstefnu sem er í samræmi við markmið Aðalnámskrár grunnskóla. Þar eru bæði málin, táknmál og íslenska, jafnrétthá og stefnt að því að nemendur verði tvítyngdir við lok grunnskóla, þ.e. hafi gott vald á táknmáli og íslensku, lesnum texta og ritmáli.

Hlutverk Táknmálssviðs

Táknmálssviðið á veita heyrnarlausum og heyrnarskertum nemendum kennslu við hæfi og á að taka við nemendum af öllu landinu sé þess óskað og viðkomandi sveitarfélag reiðubúið að greiða fyrir þá þjónustu. Heyrnarleysi/heyrnarskerðing er aðalfötlun nemanda, en oft er einnig um fylgifatlanir að ræða. Táknmálssviðið á líka að sinna daufblindum nemendum og þeim nemendum sem þurfa á sjónrænt mál af einhverjum orsökum. Fyrir alla nemendur Táknmálssviðs skal velja almenna bekki, sem þau eru skráð í, og fá þar sína félagslegu og námslegu blöndun eftir því sem við á. Fagfólk Táknmálssviðs skipuleggur nám nemendanna og blöndun miðað við námslega stöðu og getu hvers og eins, að höfðu samráði við foreldra, deildarstjóra sérkennslu og kennara almennu bekkjanna.

Skipulag og framkvæmd kennslu

Kennsla á Táknmálssviði miðast við Aðalnámsskrá grunnskóla eins og mögulegt er. Gera skal einstaklingsáætlanir fyrir alla nemendur Táknmálssviðsins og nám þeirra algerlega sniðið að þeirra eigin getu og þörfum og þar af leiðandi blöndun mismikil eftir einstaklingum. Kennsla nemenda getur farið fram:

Inni á Táknmálssviðinu ýmist í hóp eða einstaklingslega.
Í blöndun að einhverju leyti, ýmist með túlk, táknmálstalandi kennara (e.t.v. í tveggja kennara kerfi) eða táknmálstalandi stuðningsaðila og nemendur fái síðan stuðningstíma hjá kennara á Táknmálssviðinu eftir þörfum.

Mat

Fylgjast á mjög náið með námsframvindu og félaglegri stöðu nemenda Táknmálssviðsins og endurmeta stöðuna, fyrirkomulag kennslunnar, markmið og árangur reglulega, sérstaklega í þeim greinum þar sem þau eru í blöndum. Mat í einstökum greinum fer fram með hefðbundnum hætti eftir getu og þörfum hvers og eins.

Prenta | Netfang